Ræða á ráðstefnu ATTAC í Noregi í febrúar 2010

Ísland þar sem eru einungis 320 þúsund íbúar, sér nú fram á að þurfa að axla margra milljarða evra skuldabyrgði sem langstærstur hluti þjóðarinnar ber nákvæmlega enga ábyrgð á og ræður alls ekki við að greiða.” Þessi staða minnir á orð skáldsins Sigfúsar Daðasonar í ljóði úr bókinni Hendur og orð frá árinu 1959, en þar segir: “Sjálfgerðir fjötrar eru traustastir fjötra.”

Norðurlöndin hafa samþykkt að leggja íslendingum lið í endurreisnarstarfinu undir handleiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn með lánsloforðum. Nú þegar þjóðinni er orðið ljóst að Sjóðurinn veldur ekki verkefninu og vaxandi fylgi er við að segja upp samningnum við hann og finna sína eigin leið til endurreisnar í anda norrænna velferðarríkja sem er yfirlýst stefnumið ríkisstjórnarinnar og í sátt við umhverfið í anda sjálfbærrar þróunar ættu vinveitt norrænu ríkin að fylgja því eftir og semja beint við Ísland um lánafyrirgreiðslur í samræmi við þarfir landsmanna en ekki þarfir alþjóðlegra fjármálamarkaða. Til að losna undan þrýstingi og hótunum þeirra þarfnast Íslendingar allra tiltækra bandamanna, vinveittra þjóða, hreyfinga og einstaklinga.

Ágætu Norðmenn, þingmenn, ráðstefnugestir og almenningur.

Mér finnst viðeigandi að hefja þetta erindi með ívitnun í ykkar eigin landsmann, Evu Joly, sem blásið hefur von í brjóst margra Íslendinga, þeirri einföldu von að til sé réttlæti, en hún segir:

“Ísland þar sem eru einungis 320 þúsund íbúar, sér nú fram á að þurfa að axla margra milljarða evra skuldabyrgði sem langstærstur hluti þjóðarinnar ber nákvæmlega enga ábyrgð á og ræður alls ekki við að greiða.” Þessi staða minnir á orð skáldsins Sigfúsar Daðasonar í ljóði úr bókinni Hendur og orð frá árinu 1959, en þar segir: “Sjálfgerðir fjötrar eru traustastir fjötra.” Ég nefni þetta vegna þess að slíkar byrðar vilja íslensk stjórnvöld leggja á almenning til að bjarga skuldbindingum sem einkarekin fjármálfyrirtæki hafa stofnað til víða um heim. Þetta er staða Íslands eftir sigurgöngu og hrun nýfrjálshyggjunnar, þeirrar stefnu sem ötulast vann að einkavæðingu sameiginlegra verðmæta þjóðfélagsins, en síðast liðna þrjá áratugi hefur sú stefna teygt anga sína um allan heim í krafti hnattvæðingar sem enn er allsráðandi. Þess vegna rís fólk upp og dregur þetta kerfi í efa; og það gerist vitaskuld á heimsvísu. Spurningin er þessi: Af hverju á almenningur að axla ábyrgð á fjármálakreppu auðstéttarinnar, bara til að auðstéttin geti haldið áfram einsog ekkert hafi í skorist?

Síðast liðið sumar sagði Kirsten Halvorsen, fyrrum fjármálaráðherra Noregs, að við Íslendingar getum sjálfum okkur um kennt fyrir frjálshyggjutilraun okkar? Þar hefur hún nokkuð til síns máls, og hún þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að svo verði ekki, nema að það eru tilraunadýrin sem gjalda tilraunarinnar en ekki þeir sem stjórnuðu henni eða höfðu virkilega gaman af henni og raunverulegan hag. Þeir sem sköpuðu skuldirnar þurfa ekki að hafa af þeim neinar áhyggjur. Hinir margfrægu óreiðumenn verða þjóðin, tæru snillingarnir, það erum við, og smám saman læðist þetta allt inni í tungumálið og við erum farin að greiða úr skuldunum sem við stofnuðum ekki til, búin að játa á okkur glæpinn sem við frömdum ekki og allt er í járnum. Jafnaðarmenn á Íslandi vilja að við borgum tilraunina í topp og sú greiðsla á að vera inngöngumiði í Evrópusambandið. Evrópusambandið og Alþjóðagjaeyrissjóðurinn hafa tekið að sér að innheimta þessa greiðslu og gera alla íslensku þjóðina ábyrga fyrir tilrauninni. Að öðrum kosti verður okkur refsað um aðgang að lánsfé. Við erum sett í ruslflokka matsfyrirtækja og okkur hótað einangrun. Kúba norðursins er vinsælt hugtak þessi dægrin. Einn samningamaðurinn í ICESAVE deilunni við Breta og Hollendinga líkti okkur við Jesús því okkur væri ætlað að bera byrðar fjármálakerfisins og hvort sem hann gerði sér það ljóst eða ekki hitti hann naglann á höfuðið. Við eigum að gangast í ábyrgðir til að kerfi fjármálaelítu heimsins standist. Hryjðuverkalög væru ekki sett á þjóð ef málið snerist aðeins um fall eins banka í tveimur löndum.

Skoðum þetta örlítið nánar: Hinir alfrjálsu fjármálamarkaðir hafa verið drifkraftur alþjóðavæðingarinnar. Útþensla þeirra hefur byggst á því að fjármagnið hefur getað ferðast frjálst um heiminn og flogið líkt fuglum heimshorna á milli og á því hefur enginn borið ábyrgð. Sú var röksemd íslensku bankamannanna, fjármálafurstanna og útrásarvíkinganna, að þeir bæru svo mikla ábyrgð og þess vegna ættu þeir að bera svo mikið úr býtum. Þeir fengu einkavædda banka upp í hendurnar og voru í einkarekstri og því var áhættan þeirra. En þetta gilti aðeins á meðan gróðinn var til staðar, á meðan bólan blés út og lánsfé var í boði. Það er ekki fyrr en allt hrynur að í ljós kemur að ábyrgðin hvílir á þjóðríkinu og þá gildir hnattvæðingin ekki lengur ef svo má segja. Hér gildir því hið fornkveðna að gróðinn skal einkavæddur en tapið þjóðnýtt. Þetta er svipað og ef einhver bær í Norður-Noregi bæri ábyrgð á öllu norska hagkerfinu. Hagvöxtur góðærisins, tími nýfrjálshyggjunnar, byggðist á takmarkalausri skuldsetningu einstaklinga og fyrirtækja vegna offramboðs á lánsfé. Þetta kerfi náði endimörkum sínum í hrunadansi banka og fjármálastofnana fyrir rúmu ári síðan. Tveimur megninaðferðum hefur verið fylgt til að mæta þessum vanda og endurreisa hagkerfin. Ein aðferðin gildir fyrir iðnríki í kreppu og sú aðferð er alveg óháð því hve óábyrg þau voru í aðdraganda kreppunnar. Hún byggir fyrst og fremst á því að ríkið leggur fé til banka svo þeir geti haldið uppteknum hætti, til dæmis hvað varðar bónusgreiðslur. Hin reglan eða aðferðin gildir um þróunarlöndin. Þeim er ætlað að fylgja viðtekinni forskrift Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, það er að segja, aðhaldssamri peningastefnu og samdrætti í fjárlögum. Þetta er uppistaðan í stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi.

Allt samfélag okkar var lagt undir í spilavíti fjármálamarkaðanna og hámarksgróði og auðsöfnun hinna fáu var eina markmiðið. Hinn alfrjálsi, alþjóðlegi fjármálamarkaður fór algerlega úr böndum á þeim áratug sem liðinn er af öldinni. Sú þróun hefst á Íslandi með einkavæðingu bankanna, einkavæðingu sem var rammpólitísk og gjörspillt í öllu sínu ferli. Stjórnarflokkarnir afhentu sínum mönnum bankana og í kjölfarið hófst gjörningahríð viðskiptalífsins, áherslan á aðhalds- og regluleysi. Í þessu ferli leikur stofnun einsog Viðskiptaráð stórt hlutverk, en einnig matsfyrirtækin sem gerðu bóluna mögulega með vægast sagt frjálslegu gæðamati sínu á junk-bréfum: þau voru sem gull í höndum óprúttinna spákaupmanna og blésu út efnahagsreikninga bankanna. Þegar botninn datt undan þessari spilaborg hrundu margar fjármálastofnanir, ekki bara nýeinkavæddir íslenskir bankar heldur heldur líka rótgrónar fjármálastofnanir víða um heim. Í stað þess að hinn marglofaði hnattvæddi heimur sameinist um að leysa vandann sem skapaðist eru þau lönd sem verst urðu úti skilin eftir úti í kuldanum og matsfyrirtækin sem bera ríkulega ábyrgð á bólunni og vandanum leika nú það hlutverk að lækka mat sitt á greiðslugetu þjóða allt niður í ruslflokk og auka þannig á vanda þeirra og gera þau að fórnarlömbum vogunarsjóða og hamfarafjárfesta.

Þessu verður að snúa við. Það þarf að gera róttækar, raunverulegar breytingar í átt að öðru kerfi, til hagsbóta fyrir yfirgnæfandi meirihluta mannkyns, þar sem fjármagnið er í þjónustu félagslegs réttlætis, efnahagslegs stöðuleika og sjálfbærrar þróunar um heim allan. Við megum ekki samþykkja afturhvarf til óbreytts ástands á komandi árum. G20 ríkin hunsuðu aðkomu Sameinuðu þjóðanna að lausn kreppunnar en þær boðuðu til ráðstefnu G192 ríkjanna í júní s.l. og gáfu öllum orðið, líka þeim löndum sem líða fyrir afleiðingarnar af kreppunni þó þær hafi ekki verið stórleikendur á fjármálamörkuðunum. G20 ríkin vilja nú, sem fyrr, halda um stjórnartaumana og hafa ákveðið að setja Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á oddinn í endurreisn fjármálakerfi heimsins í sem næst óbreyttri mynd, því öfugt við SÞ þar sem hver þjóð hefur eitt atkvæði ráða ríku löndin þar ríkjum og Bandaríkin ein sér hafa neitunarvald á allar ákvarðanir hans.

Hér má segja að ákveðin kaldhæðni ríki í sögulegu tilliti og hún er sú að allt í einu er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem búið var að dæma úr leik, mættur á svæðið og tekinn til óspilltra málanna. Það er sagt að kreppan hafi komið einsog himnasending fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Áður en hún skall á var hann stofnun í gjörgæslu. Fæst þróunarlöndin virtu hann viðlits. Skopast var að getuleysi hans til að sjá fyrir kreppur í nýmarkaðslöndum Asíu og Austur-Evrópu. Og ekki nóg með það: Svör hans við þessum kreppum juku oftast á vandann. Hann var jafnvel kallaður inn á teppið af eftirlitsaðilum vegna lélegrar stýringar á sínum eigin sjóðum. Stefna hans og fyrirmæli var álitin ósveigjanleg og hugmyndasnauð, sömu nálguninni var beitt á gjörólík hagkerfi og aðstæður. Bæði tíundi áratugurinn og fyrstu ár þessarar aldar voru sjóðnum sérstaklega erfið: hagfræðingar hans og pólitískir ráðgjafar skildu næsta lítið í kreppunum sem þeim var falið að fást við. Þar eru nefnd til sögunnar lönd einsog Tæland, Suður-Korea, Tyrkland og Argentína. Þar sem kreppan stafaði af takmarkalausri sóun einkaaðila kröfðust þeir aukins afgangs á fjárlögum. Þar sem kreppan stafaði af eignarýrnun lögðu þeir áherslu á háa vexti og aðhaldssama peningastefnu. Til að mæta efnahagslegum samdrætti ráðlögðu þeir aðhaldssöm fjárlög með niðurskurði í opinberum útgjöldum.

Stjórnvöld okkar á Íslandi ákalla alþjóðasamfélagið og grátbiðja um aðstoð án þess að huga nokkuð að þeirri skuldbindingu sem fólgin er í aðstoðinni. Allt gerist þetta á meðan aðrar þjóðir sem kynnst hafa þessari aðstoð, þessum sömu fjötrum, kappakosta að losna undan þeim. Tökum eitt lítið dæmi: Árið 1983 höfðu auðmenn í Ekvador sökkt landinu á kaf í skuldafen við erlenda banka með áhættusömum fjárfestingum. Hljómar þetta kunnuglega? Ekvador var þvingað af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að taka að láni 1,5 milljarða bandaríkjadala til að borga skuldirnar. Þetta er í rauninni sama spekin og liggur á bak við skuldbindingar Íslands gagnvart Bretum og Hollendingum. Bandaríski hagfræðingurinn Micheal Hudson orðar þetta svona: “Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er nokkurs konar handrukkari alþjóðlegra lánardrottna og innheimtir tekjur af fasteignum og iðnaði fyrir þá. Það ótrúlega er að þjóðir um allan heim eru að glata efnahagslegu og peningalegu sjálfstæði sínu án mótspyrnu.”

Málsmetandi hagfræðingar um allan heim eru að segja okkur það sama: Hlítið ekki skilmálum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og sendið hann heim. Þessir hagfræðingar eru nú í stöðu þeirra sem vöruðu okkur við hruninu en var ekki hlustað á. Í rauninni ætti vandi ICESAVE skuldbindinganna ekki að vera vandi þjóðarinnar heldur eigenda þessa einkavædda banka sem rakaði til sín fé í gegnum ICESAVE reikningana á sínum tíma. Okkar vandi er sá að stjórnvöld okkar og stjórnmálamenn vilja taka þennan vanda af eigendum bankans og færa hann yfir á okkur og afkomendur okkar. Tvískinnungur alþjóðasamfélagsins kemur berlega í ljós í ICESAVE-deilunni sem hefur staðið í vegi allrar endurreisnar á Íslandi. Þeir aðilar sem bera ábyrgð á og nutu þessara milljarða eru margir hverjir enn starfandi og velmegandi fjármálamenn í London. Þangað hafa þeir margir flutt lögheimili sín, til dæmis Björgólfur Thor Björgólfsson. Hann var einn aðaleigandi Landsbankans sem stóð að baki þessum nú illræmdu innlánsreikningum, ICESAVE, en hann var boðsgestur fjármálaelítunnar á fundi hennar í Davos nú í lok júnúar 2010: en engum sögum fer af því að hún væri að rukka hann eða láta hann taka ábyrgð á gjörðum sínum. Þegar íslenskir skattborgarar hafna því að axla ábyrgðina á þessum reikningum, sem þeim ber engin lagaleg skylda til, eru þeir ekki að vísa skuldinni til breskra og hollenskra skattborgara, þó svo að þeir hafi greitt út innistæðurnar: við erum þvert á móti að krefjast þess að þeir sem ollu vandanum axli ábyrgðina en fái ekki að leika lausum hala og halda áfram að mala gull með þessum peningum, þessu „illa fengna“ fé. Sumir tala um að vinaþjóðir hafi brugðist, en það er ekki kjarni málsins. Svíar eru ekki óvinir okkar en sænska fjármálakerfið fjármagnaði bankakerfi Eystrasaltsríkjanna og fleiri fyrrverandi austantjaldsríkja þegar þau voru markaðsvædd. Sænsk yfirvöld horfa fram á hrun þessara banka og skilja því málflutning Gordons Browns jafn vel og hann sjálfur, en Gordon Brown er einn helsti hugmyndafræðingur fjármálakerfisins í City og reglur þess eða réttara sagt regluleysi varð leiðarljós hins íslenska fjármálakerfis.

Sú ríkisstjórn sem var við völd þegar kreppan skall á af fullum þunga leitaði ásjár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sjóðurinn mætti á svæðið og setti upp endurreisnaráætlun fyrir landið. Gamalkunnir fylgifiskar aðkomu hans gáfu sig strax fram: hávaxtastefna sem gagnast erlendum fjármagnseigendum en drepur niður innlendan atvinnurekstur, niðurskurður í velferðarmálum og uppsagnir opinberra starfsmanna. Allt þetta eykur á kreppuna og samdráttinn, gerir vandamál heimilanna stærri og atvinnuleysið meira og drepur samfélagið í dróma. Þótt Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi verið rúinn öllu trausti, einsog áður segir, lifnaði hann við einsog gamall draugur við upphaf fjármálakreppunnar haustið 2008. Í rauninni hefur sjóðnum mistekist flest frá því að gjaldmiðlar heimsins voru settir á flot 1973. Yfirlýst markmið hans að tryggja efnahgslegann stöðugleika og koma í veg fyrir kreppur, stuðla að hagvexti og draga úr fátækt hafa oftast snúist upp í andhverfu sína. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þrýsti á stjórnir Vesturlanda að búa í haginn fyrir nýfrjálshyggjuna með einkavæðingu á öllum sviðum samfélagsins og þegar hann kom til aðstoðar kreppuþjáðum löndum annars staðar þröngvaði hann þeim inn í þann ramma. Ekki lánaðist Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að sjá fyrir hrunið á bandaríska undirmálslánamarkaðnum og langatímahorfum íslensks efnahagslífs lýsti hann sem einstaklega góðum skömmu fyrir hrun þess.

Það ríkir fjármálastríð í heiminum þar sem úrsérgengið kerfi reynir að ræsa vélarnar. “Dot.Com bólan” sem svo er nefnd þegar hugbúnaðarfyrirtæki hrundu var leyst með ódýrum húsnæðislánum, svokölluðum “undirmálslánum” og þá skapaðist ný bóla sem nú er sprungin og hana þarf að endurnýja, fjármagna og blása út aftur. Orkugeirinn er sagður fórnarlamb næstu fjármálabólu. Þetta sjáum við í áherslunni á stjóriðjuframkvæmdir. Ríkisstjórnin fær ekki einu sinni að hækka skatta á stórfyrirtækin eða láta þau borga meira fyrir orkuna. Hugmynd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að endurreisa efnahagslífið með erlendri skuldsetningu og erlendu fjármagni. Í samræmi við það er meginmarkmið íslenskra stjórnvalda að gera allt sem til þarf til að endurheimta traust fjármálamarkaða heimsins og mikill þrýstingur er á stjórnvöld að grípa ekki til neinna þeirra ráðstafana, hvort sem er í skattamálum eða umhverfismálum, sem styggt gætu erlenda fjárfesta.

Ég veit ekki hver stefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er í smáatriðum eða hvernig framkvæmd hennar verður á Íslandi. Margt bendir til að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins skoði landið einungis sem reikningsdæmi þar sem jafnvægi þurfi að nást í ríkisfjármálum. Þannig litu áætlanir þeirra út, hvernig snúa mætti skuldastöðunni við með afkastamikilli framleiðslu og gjörnýtingu orkulinda samfara niðurskurði opinberra útgjalda og hækkun skatta. Hið félagslega fjöregg þjóðarinnar, velferðarkerfið, er að veði. Það sem vert er að benda á er þetta: Nú kann að vera hægt að semja um skuldir, sem sé, við getum lýst því yfir að við ætlum að borga skuldir okkar en að þetta séu skuldir sem almenningur hefur ekki stofnað til nema að litlu leyti, og auk þess svo miklar að það er vafaatriði hvort við ráðum við þær. Því viljum við hafa tillögurétt um greiðsluskilmála. Ég nefni þetta vegna þess að eftir að stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur verið hrint í framkvæmd er ekki víst að það verði um nokkuð að semja. Ég er engan veginn að fullyrða að þetta verði endanleg niðurstaða, bara að þetta er staðan í hnotskurn og um þetta verðum við að hugsa. Þetta má lesa út úr sögu Haítí, þjóð sem er dæmd til að greiða skaðabætur og lánað fyrir skuldinni. Vandamál Haítíbúa hefur alla tíð verið það að yfirstétt landsins og stjórnvöld hafa flækt það í svo flókið net alþjóðlegra skuldbindinga í gegnum skuldsetningu að engin leið hefur verið fyrir íbúana að brjóta þetta vald á bak aftur. Einnig þar kemur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn við sögu.

Norðurlöndin hafa samþykkt að leggja íslendingum lið í endurreisnarstarfinu undir handleiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn með lánsloforðum. Nú þegar þjóðinni er orðið ljóst að Sjóðurinn veldur ekki verkefninu og vaxandi fylgi er við að segja upp samningnum við hann og finna sína eigin leið til endurreisnar í anda norrænna velferðarríkja sem er yfirlýst stefnumið ríkisstjórnarinnar og í sátt við umhverfið í anda sjálfbærrar þróunar ættu vinveitt norrænu ríkin að fylgja því eftir og semja beint við Ísland um lánafyrirgreiðslur í samræmi við þarfir landsmanna en ekki þarfir alþjóðlegra fjármálamarkaða. Til að losna undan þrýstingi og hótunum þeirra þarfnast Íslendingar allra tiltækra bandamanna, vinveittra þjóða, hreyfinga og einstaklinga.